Þegar náinn aðstandandi fellur frá fylgja því oft flókin og krefjandi verkefni. Það þarf að ganga frá dánarbúinu, ákveða hvernig skipta eigi eignum, fylla út skýrslur og sjá um samskipti við opinberar stofnanir. Fyrir marga getur þetta verið yfirþyrmandi - sérstaklega á erfiðum tímum.
Opinber eða einkaskipti?
Við skipti á dánarbúi þarf að taka ákvörðun um opinber eða einkaskipti:
- Einkaskipti, þar sem erfingjar sjá sjálfir um skipti á dánarbúinu.
- Opinber skipti, þar sem dómari skipar skiptastjóra til að sjá um skiptin.
Einkaskipti hentar betur ef dánarbúið er einfalt í sniðum og ef það er enginn ágreiningur milli erfingja. Ef ágreiningur er milli erfingja eða ef eignir og skuldir eru umfangsmiklar getur verið nauðsynlegt að setja dánarbúið í opinber skipti.
Tékklisti – hvað þarfað huga að?
Hér er einfaldur listi yfir nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
- Tilkynna andlát – til þjóðskrár, banka o.fl.
- Taka saman lista yfir erfingja.
- Leita til Sýslumanns og óska eftir upplýsingum um kaupmála og erfðaskrá.
- Sækja um leyfi til einkaskipta eða senda inn beiðni um opinber skipti.
- Taka saman lista yfir eignir og skuldir – Sjá skattskýrslur.
- Gera skiptagerð – Draga saman eignir og skuldir.
- Fylla út erfðafjárskýrslu.
- Greiða skatta og ganga frá skiptagerð.
Þarf ég aðstoð við skipti á dánarbúi?
Ef dánarbú er einfalt í sniðum og enginn ágreiningur er uppi milli erfingja á að vera óþarfi að fá aðstoð við skipti á dánarbúi. Sumum finnst yfirþyrmandi að setja sig inn þessi mál samhliða öllu öðru sem fylgir andláti náins aðstandanda og kjósa að fá aðstoð.
Í sumum tilvikum getur verið nauðsynlegt að fá aðstoð lögmanns til þess að gæta hagsmuna erfingja við skipti. Það á sérstaklega við ef ágreiningur er milli erfingja eða ef dánarbú hefur verið tekið til opinberra skipta.