Breytingar á samningsfjárhæð - ytri áhrif

Höfundur
Andri Björgvin Arnþórsson
Starfar sem lögmaður og sérhæfir sig m.a. í verktakarétti, samningum og sáttamiðlun.
Hafa samband

Krafa um breytingu á samningsfjárhæð út af lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum.

Samkvæmt ákvæði 5.1.13 í ÍST 30:2012 þá geta báðir samningsaðilar, þ.e. verkkaupi og verktaki, krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum, almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar breytingar er hafa áhrif á kostnað verktaka eða verkkaupa, til hækkunar eða lækkunar sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki. Ágætt dæmi um ágreining um þetta var tekið fyrir í dómi Landsréttar föstudaginn 14. október 2018 í máli nr. 281/2018.

Verksamningur – Verðtrygging – Virðisaukaskattur

Reifun Landsréttar:

V hf. var verkkaupi og Ó sf. verktaki við gerð Vaðlaheiðarganga. Í febrúar 2015 óskaði V hf. eftir því við Ó sf. að félagið myndi lækka reikninga sína frá og með 1. janúar 2015 um 1,2% vegna lækkunar virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% sem tók gildi þann dag. Ó sf. gaf út reikninga í samræmi við þessa kröfu V hf. með fyrirvara um réttmæti lækkunar kröfunnar. Ó sf. höfðaði í kjölfarið mál gegn V hf. til að heimta þá fjárhæð sem félagið taldi nema vangoldnum verklaunum vegna lækkunar kröfunnar. Landsréttur taldi að V hf. hefði, að uppfylltum skilyrðum  ÍST30, getað krafist breytinga á endurgjaldi fyrir þann hluta verksins sem var unninn eftir 1.janúar 2015 vegna áhrifa sem breytingar á lögum um virðisaukaskatt hefðu á kostnað, en óhjákvæmilegt væri að líta á virðisaukaskatt sem kostnað í skilningi þeirrar greinar. Aðila máls greindi á um það hvort og þá að hvaða leyti ætti við úrlausn málsins að taka tillit til áhrifa breytinga 1. janúar2015 á lögum nr. 50/1988 á þróun byggingarvísitölu. Taldi Landsréttur að þær breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 50/1988 og áhrif þeirra á þróun byggingarvísitölu hefðu ekki skapað málsaðilum sjálfstæðan rétt til að krefjast breytinga á þeim hluta heildar endurgjalds fyrir verkið sem laut að verðbótum. Vegna þeirrar tengingar sem væri að finna í grein í ÍST30 milli leiðréttinga á samningsverði, sökum beinna kostnaðarbreytinga sem leiði af breytingum á lögum, og áhrifa lagabreytinga á verðbætur yrði hins vegar ekki hjá því komist að meta saman hin beinu áhrif lagabreytinganna á kostnað málsaðila og hin óbeinu áhrif þeirra á verðbætur. Með vísan til framlagðra matsgerða lá fyrir að Ó sf. fékk greiddar frá V hf. mun hærri verðbætur ofan á samningsfjárhæðina en hann hefði fengið ef umræddar lagabreytingar hefðu ekki komið til án þess þó að kostnaður hans hækkaði. Ósk V hf. um að reikningar Ó sf. yrðu lækkaðir vegna beinna áhrifa lækkunar virðisaukaskatts úr 25,5% í 24% á kostnað var því talin réttmæt. Var V hf. sýknað af kröfum Ó sf.

Krafa um lækkun og fyrirvari um réttmæti hennar.

Eins og kemur fram í reifun Landsréttar, þá óskaði V hf. eftir því við Ó sf. að heildarreikningur yrði lækkaður um 1,2% vegna lækkunar á virðisaukaskatti úr 25,5% í 24%. Ó sf. gaf út reikninga í samræmi við kröfu Vhf., þó með fyrirvara um réttmæti lækkunarinnar. Í verksamningum þar sem verkkaupi fer fram á lækkun reikninga skiptir miklu máli að nýr reikningur sé sendur með fyrirvara um réttmæti lækkunar. Að öðrum kosti er almennt talið að verktaki samþykki lækkunina án athugasemda.

ÍST 30 hluti að verksamningi aðila.

Í útboðslýsingu kom fram að ÍST 30:2003 (nú :2012) gilti m.a. umsamning aðila. Ákvæði 31.12 í ÍST:30 frá 2003 er í megindráttum það sama og ákvæði 5.1.13 í ÍST:30 frá 2012. Í  umræddri útgáfu staðalsinssegir: „Báðir aðilar geta krafist breytinga á samningsfjárhæð ef fram koma á samningstímabilinu breytingar á lögum og/eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum er hafa áhrif á kostnað sem reglur um verðbreytingar í samningi endurspegla ekki.

Lækkun virðisaukaskatts og áhrif þess á byggingarvísitölu.

Virðisaukaskattur var lækkaður þann 1. janúar 2015 úr 25,5% í 24%. Á grundvelli þess óskaði verkkaupi þess að verktaki lækkaði reikninga sína um 1,2% eftir breytinguna. Á sama tíma var lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis og frísundahúsnæðisúr 100% í 60%. Kom helst til álita ágreiningur um réttmæti kröfu verkkaup um lækkun á reikningum og hvaða áhrif lækkun virðisaukaskatts hefði á byggingavísitölu.

Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að byggingarvísitalan hefði verið um 1,5%-1,9% lægri ef virðisaukaskatturinn hefði ekki færst niður úr 25,5% í 24%. Samkvæmt því hefði verktakinn í raun fengið hærri verðbætur en ella.

Landsréttur snéri við dómi héraðsdóms og sýknaði verkkaupa af kröfum verktakans á grundvelli þess að líta yrði til heildaráhrifa sem lagabreytingin fól í sér og að verktakinn hefði í raun fengið „mun hærri verðbætur ofan á samningsfjárhæðina en hann hefði fengið ef umræddar lagabreytingar hefðu ekki komið til án þess þó að kostnaður hans hækkaði.“

Andri Björgvin Arnþórsson
Lögmaður
Um Arnthorsson

Hjá Arnthorsson vinnum við markvisst að því að leysa mál með skilvirkum hætti.

Tengdar greinar

Sjá allar greinar

Mæting í Héraðsdóm Suðurlands (Selfossi).

Lesa meira

Að setja húsnæði í útleigu - þrjú algeng mistök.

Lesa meira

Hafa samband