Þegar endurbætur eru á húsum eiga endurbæturnar að taka tillit til núgildandi byggingarreglugerðar, þrátt fyrir að húsið hafi verið byggt í tíð eldri reglugerðar eða laga. Ágætt dæmi um þetta er dómur Landsréttar föstudaginn 16. nóvember 2018 í málinr. 228/2018.
Skaðabótamál – Líkamstjón – Ábyrgðartrygging –Viðurkenningarkrafa
Reifun:
Kona slasaðist þegar hún féll í tröppum í húsi Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu við Hátún 2 í Reykjavík en hús kirkjunnar er tvær hæðir auk kjallara. Þegar slysið varð var viðkomandi ásamt hópi fólks á leið niður stigann á leið í kjallara hússins. Við skýrslutöku fyrir héraðsdómi lýsti viðkomandi atvikum svo að hún hefði gengið hægra megin niður stigann,þeim megin sem ekki var handrið, en sonur hennar hafi verið fyrir framan hana. Þegar hún hafi verið í um það bil fjórðu tröppu ofan við stigapall fyrstu hæðar hefði drengurinn skyndilega numið staðar. Hún hafi þá misst fótanna, fallið niður á stigapallinn og lent á hægri öxl. Við þetta meiddist hún nokkuð. Í málinu var m.a. byggt á því að stigin uppfyllti ekki 3. mgr. gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvæðið er um handrið og handlista en skv. 3.mgr. skulu handrið eða handlistar vera báðum megin á öllum stigum/tröppum. Þó er undantekning á því og heimilt að hafa eitt handrið/handlista ef stigi eða tröppur eru 0,9 m breið, sbr. 6.4.8. gr., og liggur að vegg.
Í dómi Landsréttar segir síðan orðrétt: „Hús Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu var byggt árið 1962 en þá var í gildi byggingarsamþykkt fyrir Reykjavík nr. 195/1945. Samkvæmt 3. tölulið 29. gr. þeirrar samþykktar skyldi á öllum stigum vera handrið öðrum megin eða beggja vegna, ef stiginn lægi ekki að vegg. Stiginn sem um ræðir uppfyllti því kröfur gildandi byggingarreglna þegar hann var reistur. Þá er til þess að líta að slysið varð í þeim hluta stigans sem liggur á milli fyrstu og annarrar hæðar hússins en ekki niður í kjallara sem var breytt á árunum 1996 og 2003.“
Af dómi Landsréttar má ráða, að ef útbúnaður sé í samræmi við kröfur þess tíma sem húsið var byggt, að þá sé útbúnaður fullnægjandi. Ef endurbætur eru gerðar á útbúnaði fasteignar þurfa þær úrbætur að vera í samræmi við gildandi byggingarreglugerð.