Krafa um lengri verktíma.
Í ákvæði 5.2.3. í ÍST 30 segir: "Ef verktaki telur sig eiga rétt á framlengingu á verktíma skal hann tafarlaust senda verkkaupa rökstudda tilkynningu um það. Í tilkynningu skal rökstutt að töfin hafi hlotist af þeim atvikum sem verktaki ber fyrir sig." Samkvæmt ákvæðinu á verktaki að senda tilkynninuna án tafar. Dragist að tilkynna um tafir getur verktakinn glatað þeim rétti. Í tilkynningunni á að lýsa atvikum sem valda töfinni. Að mati höfundar er best senda tilkynningu fyrir verkfund og bóka um tafir jafnóðum á verkfundum. Ágætt dæmi um þetta er dómur Hæstaréttar fimmtudaginn 1. júní 2017 í máli nr. 510/2016.
Verksamningur – Verklok - Tafir - Tilkynningaskylda - Tómlæti.
Reifun Hæstaréttar:
A ehf. höfðaði mál til heimtu greiðslu fjárkrafna sem hann taldi sig eiga á hendur I ohf. á grundvelli verksamnings frá 2012 um viðbyggingu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. I ohf. taldi sig eiga gagnkröfu á hendur A ehf. vegna umsaminna tafabóta sem skuldajafnað yrði við kröfur hans að því leyti sem þær yrðu viðurkenndar. Taldi A ehf. m.a. að borið hefði að lengja verktíma hans og stytta þá tímabil umsaminna tafabóta á grundvelli ÍST 30 og orðsendinga A ehf. til I ohf. í maí 2012. Í hinum áfrýjaða dómi hafði verið talið að ákveðin orðsending hefði verið ófullnægjandi tilkynning í skilningi ÍST 30. Í dómi Hæstaréttar var talið að orðsendingin hefði fullnægt kröfum staðalsins og sérstaklega áréttað að fyrrnefnd grein gerði aðeins ráð fyrir rökstuddri tilkynningu þess efnis að verktaki teldi sig eiga rétt á framlengdum verktíma og hvernig ætluð töf tengdust þeim atburðum sem hann bæri fyrir sig. Þar sem í hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, hefði í engu verið fjallað efnislega hvort eitthvert þeirra atriða sem A ehf. byggði á kynni að hafa skapað honum rétt á lengingu verktíma var talið að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsóm að taka málið til meðferðar að nýju.
Samantekt
Í málinu eru flestar tilkynningar verktaka dæmdar ófullnægjandi á grundvelli þess að tilkynningar verktakans uppfylltu ekki framangreint ákvæði. Þess ber að geta að Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms og hefur málið því farið aftur fyrir héraðsdóm og að lokum fyrir Landsrétt í máli nr. 237/2018. Málið var þar staðfest að mestur í samræmi við dóm Hæstaréttar nr. 510/2016.