Þegar verktaki tekur að sér verk þá skiptir máli hvort unnið sé fyrir lögaðila eða einstaklilng.
Að vinna fyrir lögaðila:
Þegar unnið er fyrir lögaðila hafa verksamningar, útboðsskilmálar, teikningar og bókanir í verkfundargerðum og samskipti mesta þýðingu. Ef enginn verksamningur er milli aðila er almennt byggt á almennum útboðs- og samningsskilmálum um verkframkvæmdir (ÍST30:2012), á ákvæðum lausafjárkaupalaga nr. 50/2000, meginreglum og dómafordæmum.
Að vinna fyrir einstaklinga:
Ólíkt samningum milli verktaka og lögaðila þá gilda þjónustukaupalög nr. 42/2000, um þjónustu sem verktaki innir af hendi fyrir einstaklinga. Lögin taka til hvers kyns þjónustu, sem veitt er í tengslum við fasteignir, svo sem vegna pípulagna, raflagna, málningarvinnu, þakvinnu og annarrar þjónustu, hvort heldur sem unnið er innan eða utan húss og það sama gildir um vinnu við nýbyggingar. Lög um þjónustukaup eru ófrávíkjanleg, sem þýðir að verktökum og neytendum er óheimilt að semja um lakari rétt en það sem kveðið er á um í lögunum. Ef verksamningur milli verktaka og neytanda veitir neytanda lakari rétt en þann sem lögin tryggja, eru ákvæði og eftir atvikum samningurinn í heild ógildur. Þrátt fyrir framangreint er ekkert sem bannar verktökum að veita neytendum betri rétt en það sem lögin kveða á um. Þjónustukaupalögin setja ríka skyldu á verktakann, sem sérfræðingur á sínu sviði, að upplýsa um framvindu verks, aukinn kostnað o.fl.
Flestir dómar milli verktaka og einstaklinga/húsfélaga eru á einu máli um að verktaki ber hallan af auknum kröfum, ef hann hefur ekki gætt að ákvæðum þjónustukaupalaga. Þess vegna skiptir máli að gera skriflegan verksamning við einstaklinginn. Á verktímanum skiptir væntingastjórnun mestu máli. Ef einstaklingurinn/húsfélagið fer fram á breytingar (viðbótaverk), að þá þarf að bóka um þær breytingar og gera viðkomandi grein fyrir því hvaða áhrif breytingar hafa á framvindu verksins og kostnað þess.