Lokareikningur þarf að vera gefin út innan tveggja mánaða frá afhendingu.
Samkvæmt ákvæði 5.1.9 í ÍST 30:2012 skal verktaki senda verkkaupa lokareikning vegna verksins innan tveggja mánaða frá því hann skilaði verkinu í hendur verkkaupa. Reikningurinn skal greina allar kröfur um greiðslur, þ.m.t. greiðslur vegna aukaverka og breytinga. Dómstólar hafa verið nokkuð harðir á þessu tímamarki og ef verktaki sendir inn reikning eftir þetta tímamark getur hann tapað kröfunni fyrir tómlæti. Dæmi um þetta má sjá í dómi Hæstaréttar Fimmtudaginn 15. desember 2011 í málinr. 137/2011.
Verksamningur – Tómlæti – Dagsektir – skuldajöfnuður –Uppgjör.
Reifun Hæstaréttar:
S ehf. og K gerðu með sér verksamning um uppsteypu og frágang safnaðarheimilis K. S ehf. krafði K um greiðslu vangoldinna verklauna,m.a. á grundvelli reikninga sem dagsettir voru eftir að tveir mánuðir voru liðnir frá verklokum. Samkvæmt verksamningi var ÍST 30 meðal samningsgagna og átti fullnaðarreikningur vegna verksins að vera sendur innan tveggja mánaða frá afhendingu verksins. K mótmælti greiðsluskyldu og taldi sig m.a. eiga gagnkröfu á hendur S ehf. til skuldajafnaðar vegna tafa á verklokum. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að viðurkennd var greiðsluskylda K að hluta. Að því er varðaði reikninga sem dagsettir voru eftir að tveir mánuðir voru liðnir frá verklokum, taldi Hæstiréttur að K væri samkvæmt almennum reglum samningaréttarins bundin af samþykki umsjónar- og eftirlitsmanns verksins á tilteknum kröfum fyrir lok tveggja mánaða frestsins, jafnvel þótt reikningar vegna þeirra hefðu verið dagsettir síðar. Loks taldi Hæstiréttur að K ætti rétt á tafabótum vegna seinkunar á verklokum, enda hafði S ehf. ekki sýnt fram á að félagið hefði fullnægt þeim skyldum sem á því hvíldu samkvæmt ÍST 30 til þess að geta krafist þess að verktími yrði framlengdur.
Lykilatriði:
Krafa verktakans var byggð á reikningum sem gefnir voru út 9. maí 2009. Verkkaupi mótmælti þeim á grundvelli þess að þeir væru lagðir fram of seint, sbr. ákvæði 5.1.9 í ÍST30. Hæstiréttur staðfesti niðurstöður héraðsdóms með vísan til forsenda hans, en þar segir orðrétt: „Verki hafi verið skilað 12. febrúar 2009 og hafi því stefnanda borið að senda stefndu alla reikninga í síðasta lagi 12. apríl 2009. Í þessu sambandi skipti engu þótt verktaki hafi gert fyrirvara um að hann kunni að leggja síðar fram kröfur. Það sé gjarnan gert á verktímanum að gera fyrirvara um kröfur vegna einhvers tilviks og sé það almennur skilningur að verktaki geti þá gert tölulega kröfu síðar en það verði alltaf að vera innan marka tveggja mánaða reglunnar í grein [5.1.9] í ÍST 30.“ Á þessum grunni var verkkaupi sýknaður af kröfu verktakans um greiðslu reikninganna.
Eins og sést af niðurstöðum dómsins þarf verktaki að gæta þess að allar kröfur, þ.m.t. kröfur um aukaverk og viðbótarverk, séu komnar fram eigi síðar en tveimur mánuðum frá afhendingu verks. Tímamark afhendingar er þegar lokaúttekt fer fram.