Tafir á verklokum og dagsektir

Höfundur
Andri Björgvin Arnþórsson
Starfar sem lögmaður og sérhæfir sig m.a. í verktakarétti, samningum og sáttamiðlun.
Hafa samband

Verksamningur – Tafir - Dagsektir

Tafir á verki geta leitt til þess að dagsektir leggjast á verktaka. Nauðsynlegt er verktaka að tilkynna og bóka um fyrirsjáanlegar tafir á verklokum. Það einkum við ef tafir eru vegna óviðráðanlegra atvika, t.d. veðri eða út af atvikum sem rekja má til verkkaupa, s.s. um að hafa fullnægjandi hönnunargögnum o.fl. Ágætt dæmi um ágreining þar sem verk tafðist og dæmdar voru tafabætur til frádráttar á kröfu verktaka er dómur Hæstaréttar fimmtudaginn 25. október 2007 í málinr. 58/2007

Stytt reifun Hæstaréttar:

Með skriflegum verksamningi 2. mars 2004 tók J ehf. að sér jarð- og lagnavinnu á tveimur lóðum við Klettháls í Reykjavík fyrir B. J ehf. krafði B um greiðslu samtals 8.128.835 króna fyrir verkið. B greiddi 2.000.000 krónur inn á verkið en taldi sig eiga gagnkröfu vegna dagsekta sem ættu að koma til frádráttar verklaunum. Höfðaði J ehf. mál til greiðslu mismunarins. Ágreiningur aðila laut að því hvort og þá að hvaða marki J ehf. hefði átt rétt á framlengingu umsamins verktíma vegna tíu nánar tilgreindra atriða auk þess sem þá greindi á um túlkun samnings aðila um fjárhæð dagsekta ef verkkaupi gat látið vinna önnur verk á lóðunum fyrir verklok. Talið var að J ehf. hefði uppfyllt nægilega tilkynningarskyldu sína samkvæmt grein 24.3 í ÍST30, sem vísað hafði verið til í samningi aðila, varðandi sjö af tíu atriðum. Með vísan til matsgerðar, sem ekki hafði verið hnekkt með yfirmati, og að teknu tilliti til nokkurra breytinga, var fallist á að J ehf. hefði átt rétt á að verktími vegna vinnu við aðra lóðina yrði framlengdur í 17,6 daga og 11,6 daga vegna hinnar lóðarinnar. Ekki var talið unnt að víkja frá ákvæði í sér skilmálum samningsins um fjárhæð dagsekta þó að B kynni að hafa getað látið vinna önnur verk á lóðunum fyrir verklok J ehf., enda þar kveðið á um að upphæðin væri óháð því hvort og hvernig verkkaupi hag nýtti sér verkið. Námu dagsektir samkvæmt samningi aðila samtals 7.490.000 krónum og kom sú fjárhæð til frádráttar reikningsfjárhæðum. Var B því dæmdur til að greiða J ehf. 638.835 krónur með dráttarvöxtum..

Frestir og tafabætur.

Hæstiréttur segir orðrétt: „Fallist verður á með [verktakanum] að með breyttri verkáætlun 30. mars 2004 og greinargerð 18. maí sama ár teljist hann hafa uppfyllt nægilega tilkynningarskyldu sína sem kveðið er á um í ÍST 30 grein 24.3 sem tekin var upp að framan. Er þá haft í huga að aðilar héldu reglulega verkfundi, þar sem fjallað var um verkið og framgang þess. Á þessa fundi var ávallt mætt af hálfu beggja auk þess sem eftirlitsmaður áfrýjanda var jafnan mættur. Verður að leggja til grundvallar að áfrýjanda hafi verið kunnugt um þau atriði sem hér umræðir á svipuðum tíma og þau komu upp. Þetta leiðir ekki til þess að hin formlega tilkynningarskylda stefnda samkvæmt grein 24.3 hafi fallið niður heldur verða ekki gerðar jafn strangar kröfur til þess hversu fljótt tilkynningar hafi þurft að koma fram.“

Í þessu tilviki slakar Hæstiréttur á kröfum umtilkynningaskyldu verktakans til verkkaupa á grundvelli þess að viðræður um fresti voru bókaðir í fundargerðir og mátti verkkaupa vera ljóst á hvaða grundvelli verktaki færi fram á lengingu verkloka. Um önnur atriði þar sem óskað var eftir lengri fresti sagði Hæstiréttur: „[Verktakinn] hefur ekki leitt sönnur að því að hann hafi á verktímanum tilkynnt um þau atriði sem fjallað var um í liðum nr. 8 – 10 í matsgerð. Hann getur því ekki byggt á því að hann eigi rétt til framlengingar verktíma vegna þeirra.“

Þessi dómur er mjög skýr um að, ef verktaki ætlar að fá lengri skila frest til verkloka þá ber honum að tilkynna og rökstyðja hvert einasta atvik sem hefur áhrif á verktímann.

Andri Björgvin Arnþórsson
Lögmaður
Um Arnthorsson

Hjá Arnthorsson vinnum við markvisst að því að leysa mál með skilvirkum hætti.

Tengdar greinar

Sjá allar greinar

Mæting í Héraðsdóm Suðurlands (Selfossi).

Lesa meira

Að setja húsnæði í útleigu - þrjú algeng mistök.

Lesa meira

Hafa samband