Mikilvægt er að góð samskipti séu milli aðila verksamnings á verktíma.
Dómur Hæstaréttar fimmtudaginn 1 nóvember 2001 í máli nr. 122/2001.
Verksamningur – Aukaverk - Tómlæti – Galli – Févíti
Reifun Hæstaréttar er eftirfarandi: I sf., sem síðar sameinaðist Í ehf., samdi við E ehf. um að reisa skrifstofu- og lagerhús. Í málinu deildu aðilar um uppgjör vegna verksins. E ehf. krafði Í ehf. um greiðslu vegna aukaverka, en Hæstiréttur sýknaði félagið af kröfunni með vísan til tómlætis E ehf., en hálft annað ár leið frá verklokum þar til félagið hafði uppi kröfuna. Í ehf. krafði E ehf. á móti um annars vegar tafabætur og hins vegar skaðabætur vegna galla á verkinu. Af hálfu E ehf. var byggt á því að við ákvörðun tafabóta ætti að taka tillit til breyttrar verktilhögunar og aukaverka sem hefðu seinkað verklokum. Hæstiréttur hafnaði þessari málsástæðu með vísan til þess að E ehf. hefði ekki skriflega tilkynnt I sf. að það teldi sig eiga rétt á framlengingu á verkinu. Hæstiréttur lækkaði aftur á móti tafabæturnar niður í fjórðungs lágmark frá þeim tíma sem E ehf. afhenti húsið til framhaldsframkvæmda. Þá sýknaði Hæstiréttur E ehf. af meginhluta skaðabótakröfunnar með vísan til þess að I sf. hefði ekki gefið E ehf. kost á að bæta úr gallanum áður en félagið gekk til samninga við aðra í því skyni.
Samantekt:
AUKAVERK: Það sem má taka úr þessum dómi er að aðili getur glatað kröfum um aukaverk vegna tómlætis, þ.e.ef kröfur eru ekki bornar upp nægilega snemma. Skýring Hæstaréttar er eðlileg því samkvæmt grein 3.6.5. í ÍST 30:2012 segir: „Verktaki má engin auka- eða viðbótarverkvinna nema samkvæmt staðfestum fyrirmælum verkkaupa“. Í samræmi við ákvæðið á verktaki að bera upp aukaverk eins fljótt eins og hægt er og fá skriflegt samþykki fyrir aukaverkinu áður en það er unnið. Að öðrum kosti getur verktakinn glatað kröfunni.
GALLI: Verkkaupi bar upp á verkfundi að galli væri á verkinu. Verktaki viðurkenndi gallann og lét bóka á verkfundi að hluti af flotun gólfa hefði mistekist og að þeir væru tilbúnir að gera við gallann. Þrátt fyrir það lét verkkaupi annan aðila vinnaúrbætur á verkinu án þess að gefa verktakanum kost á að bæta úr gallanum. Um þetta segir í dómi Hæstaréttar:
- „Almennt á verktaki rétt á að bæta úr göllum, sem reynast vera á verki hans, enda leiði úrbætur af hans hálfu ekki til sérstaks óhagræðis fyrir verkkaupa. Nægilega er leitt í ljós að [verktakinn] bauðst strax eftir að gallar komu fram á gólfinu til að gera sjálfur við hluta þess. Þótt fyrir liggi að hann hafi þá jafnframt gefið í skyn að hann kynni að samþykkja að aðrir yrðu fengnir til að vinna hluta verksins var það gert á forsendum þess að kostnaður yrði innan tiltekinna marka og að honum yrði tilkynnt áður en þær framkvæmdir hæfust. […] Bar [verkkaupa] eins og hér stóð á að hafa frumkvæði að því að gefa [verktaka] kost á að framkvæma viðgerðina áður en hann gekk til samninga um hana við aðra. Það gerði [verkkaupi] ekki. Getur hann því ekki nú krafið [verktaka] um kostnað vegna þessa verks. Verður kröfu [verkkaupa] af þessu tilefni þannig hafnað.“
Eins og sjá má af dómi Hæstaréttar skiptir miklu máli að samskipti séu góð á verktíma og að bókað sé í fundargerðir um það sem kemur upp á verktíma.