Lög um þjónustukaup nr. 42/2000 gilda þegar verktaki tekur að sér vinnu fyrir neytendur. Ef verktaki gefur neytanda verðáætlun, þá er meginreglan sú, að það má ekki víkja mikið frá þeirri áætlun. Sé ekki um verðáætlun eða tilboð að ræða á að greiða tímagjald, eða það sem telst sanngjarnt eldurgjald fyrir vinnuna. Gott dæmi um þetta er dómur Hæstaréttar fimmtudaginn 11. nóvember 2010 í málinr. 112/2010.
Verksamningur – Þjónustukaup – Matsgerð
Stytt reifun Hæstaréttar:
,,D og verktakinn S gerðu með sér munnlegan verksamning um niðurrif og endurbyggingu á tveimur íbúðum í eigu D. S höfðaði mál þetta gegn D til heimtu eftirstöðva reikninga fyrir efni og vinnu vegna verksins. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að D hefði ekki tekist sönnun um að S hefði gert henni verðáætlun um verkið á grundvelli 29. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup. Deila aðila laut einkum að því hvort verð það sem S krafði D um yrði talið sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan var mikil og hvers eðlis hún var í skilningi 28. gr. laga nr. 42/2000. Í dómi Hæstaréttar kom fram að D hefði ekki tekist að sanna að umfang vinnu og eðli vinnu S hefði verið ósanngjarnt og var því staðfest niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, um að D bæri að greiða S eftirstöðvar reikninga vegna verksins."
Í málinu var gerður munnlegur samningur milli aðila og gekk deila þeirra aðallega út á hvort áætlaður kostnaður verktakans teldist vera tilboð í skilningi 29. gr. þjónustukaupalaga. Í 29. gr. segir orðrétt: „Hafi seljandi þjónustu látið neytanda verðáætlun í té má verðið ekki fara verulega fram úr þeirri áætlun.“ Hæstiréttur taldi að verkkaupi hefði ekki náð að sanna að verktaki hefði látið henni í té verðáætlun fyrir verkið í skilningi 29. gr. þjónustukaupalaga. Þegar svo háttar á samkvæmt 28. gr. þjónustukaupalaga að greiða það verð sem telja má sanngjarnt með hliðsjón af umfangi og eðli vinnu. Í 28. gr. segir orðrétt: „Hafi ekki verið samið um verð fyrir keypta þjónustu skal neytandi greiða það verðsem telja má sanngjarnt með hliðsjón af því hve vinnan er mikil og hvers eðlis hún er.“ Í Hæstarétti kemur fram að neytandinn (verkkaupi) beri sönnunarbyrði fyrir því að um krafið verð sé ósanngjarnt. Í málinu fékk verkkaupi dómkvaddan matsmann til að meta umfang og eðli vinnunnar en með matsgerðinni náðist ekki að sanna að umfang og eðli vinnunnar hefði verið ósanngjarnt og var verkkaupi því dæmdur til að greiða verktakanum alla fjárhæðina.